„Ef ekkert hefði verið að gert hefði stefnt í sjóðþurrð hjá Orkuveitunni strax á vordögum og ekki hægt að greiða laun,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, er hann kynnti fjölmiðlun aðgerðaáætlun sem miðar að því bjarga fjárhag fyrirtækisins næstu fimm árin.
Erlendir lánardrottnar höfðu lokað á endurfjármögnun Orkuveitunnar og hefur björgun fyrirtækisins staðið yfir síðustu vikur og mánuði. Í lok janúar sl. var svört skýrsla HF Verðbréfa lögð fyrir stjórn OR sem sýndi mun alvarlegri stöðu en áður var talið. Var lausafjárstaðan talin nálgast hættumörk í apríl, 2,5 milljarða vantaði í júní og OR þyrfti á endanum 11 milljarða á árinu til að ná endum saman.
Í kjölfar þessarar skýrslu var ákveðið að ráðast í gerð aðgerðaáætlunar með eigendum OR, sem var svo kynnt í gær.
Bjarni Bjarnason sagði Orkuveituna hafa strandað á skeri eftir samfellda siglingu í 101 ár. „Í dag hafa verið teknar ákvarðanir sem duga til að losa hana af strandstað,“ sagði Bjarni og tók líkingu af strandi Goðafoss við Noregsstrendur. Þar hefði allt verið borið frá borði sem ekki átti að vera þar, til að létta skipið. Hið sama væru eigendur OR að gera nú.