Treysti NATO ekki fyrir horn

Líbísk stúlka við bráðabirgðaskýli í bænum Mizdah suður af Tripoli.
Líbísk stúlka við bráðabirgðaskýli í bænum Mizdah suður af Tripoli. Reuters

Álf­heiður Inga­dótt­ir, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að hún treysti hernaðarbanda­lag­inu NATO ekki fyr­ir horn. 

Hvers vegna ýtti vinstri græni full­trú­inn þá ekki á nei-takk­ann og bannaði NATO að taka við stjórn aðgerða í Líb­íu, spurði Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks.

Þessi orðaskipti urðu í umræðu um störf þings­ins eft­ir að Gunn­ar Bragi Sveins­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks, spurði Álf­heiði hver væri mun­ur­inn á að styðja stríð í Líb­íu und­ir beinni stjórn Sam­einuðu þjóðanna eða NATO.

Álf­heiður sagði, að Vinstri græn hefðu stutt ákvörðun ör­ygg­is­ráðs SÞ um flug­bann yfir Líb­íu og teldu að SÞ væri rétt­ur vett­vang­ur  til að meta stöðuna þar sem átök geisuðu. „Við treyst­um þeim og þeirra leiðsögn. Við treyst­um hins veg­ar ekki hernaðarbanda­lag­inu NATO til að fram­fylgja samþykkt­um Sam­einuðu þjóðanna og hvers vegna ætt­um við að gera það? Við erum flokk­ur­inn sem erum á móti aðild Íslands að hernaðarbanda­lag­inu NATO. Við erum flokk­ur­inn, sem erum á móti hernaðarbanda­lög­um yf­ir­leitt," sagði Álf­heiður.

Ragn­heiður Elín  sagði, að ótrú­legt væri að fylgj­ast með mál­flutn­ingi Vinstri grænna í Líb­íu­mál­inu. Þegar ákvörðun um hvort NATO eigi að taka yfir stjórn hernaðaraðgerðanna var tek­in hefði Ísland haft tök og tæki­færi til að stöðva þá ákvörðun með því að ýta á nei-takk­ann.

„Rík­is­stjórn Íslands með Vinstri-græna  inn­an­borðs ákvað að styðja þá ákvörðun og kem­ur  nú, annaðhvort upp­full af yf­ir­grips­miklu þekk­ing­ar­leysi á þess­um tveim­ur stofn­un­um og hvernig ákv­arðanir eru tekn­ar þar, eða að þetta er hei­mótt­ar­leg efti­r­á­skýr­ing, notuð til að tala inn í ein­hvern rót­tæk­an hóp sem mun ekki sætta sig við neitt á þessu sviði, efti­rá, þegar all­ar ákv­arðanir hafa verið tekn­ar," sagði Ragn­heiður Elín.

Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði að samþykkt ör­ygg­is­ráðs SÞ kvæði á um flug­bann, og ekki væri hægt að fram­fylgja flug­banni nema gerðar séu loft­árás­ir á herþotur, flug­velli og önn­ur hernaðarmann­virki og koma þannig í veg fyr­ir að herflug­vél­ar líb­ískra stjórn­valda geti tekið á loft og gert þannig árás­ir á eig­in þegna.

„Það er ekki fal­legt, það er ekki friðsam­legt en það var samþykkt í ör­ygg­is­ráði Sam­einuðu þjóðanna," sagði Þór­unn. Sagði hún að í sín­um huga væri það ekki aðal­atriðið hvaða ríki eða ríkja­banda­lag fram­fylgdi ákvörðun ör­ygg­is­ráðsins, svo framar­lega sem það væri gert.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert