Hátt í 1800 skjálftar urðu undir og við landið í febrúar eða um 64 á dag, að meðaltali. Í nýrri samantekt Veðurstofunnar kemur fram að mest var virknin við Krýsuvík en þar var skjálftahrina í lok mánaðarins. Þar urðu alls um 800 skjálftar.
Skjálftahrinan við Krýsuvík hófst aðfaranótt 20. febrúar. Að kvöldi fimmtudagsins 24. febrúar hófst þar á ný skjálftahrina og stóð hún út mánuðinn. „Snemma á sunnudagsmorgni (upp úr klukkan 5) þann 27. febrúar fóru skjálftarnir stækkandi og mældust nokkrir um og yfir þremur stigum. Klukkan 09:06 um morguninn varð síðan skjálfti sem mældist fjögur stig, vestan við vatnið.
Seinni part sunnudagsins virtist heldur vera að draga úr virkninni en klukkan 17:27 varð skjálfti sem var heldur stærri en sá fyrri, eða 4,2 stig og var hann staðsettur nokkru sunnar en sá fyrri. Báðir þessir skjálftar fundust víða um sunnan og suðvestanvert landið. Heldur fór að draga úr virkninni á sunnudagskvöldið. Búið er að staðsetja tæplega 800 skjálfta við Kleifarvatn í febrúar en nokkuð er óunnið frá sunnudeginum 27. febrúar. Skjálftarnir urðu flestir á 3 til 5 kílómetra dýpi,“ segir í samantektinni.
Rúmlega 260 skjálftar á Hengilssvæðinu
Fjórtán skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,6 stig.
Við Húsmúla á Hengilssvæðinu mældust rúmlega 260 skjálftar, flestir í tveimur skjálftahrinum sem hófust annars vegar 11. febrúar en hins vegar 21. febrúar.
Tæplega 60 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum, 13 smáskjálftar mældust við toppgíg og suðurhluta Eyjafjallajökuls og nokkrir á Torfajökulssvæðinu. Um 90 skjálftar mældust við Langjökul og tveir skjálftar mældust við Hofsjökul.
Um 130 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í febrúar. Norðan Vatnajökuls voru ríflega 70 jarðskjálftar. Á Norðurlandi og norður af landinu voru staðsettir yfir 180 skjálftar, sem er svipaður fjöldi og í janúarmánuði.
Uppfært 22:40
Þessi mikli fjöldi er ekkert einsdæmi. Þótt skjálftarnir í febrúar hafi verið um 800 fleiri en í janúar þá voru þeir álíka margir og í desember 2010. Í maí í fyrra voru þeir um 1900.