Búið er að opna Almannagjá fyrir umferð á ný en hola opnaðist á veginum gegnum gjána í morgun. Búið er að smíða fleka yfir holuna og hefur girðing verið sett umhverfis hana.
Að sögn Einars Sæmundssonar, þjóðgarðsvarðar, mun þjóðgarðurinn skoða í framhaldinu hvernig göngustígurinn verður lagfærður og til hvaða varanlegu aðgerða verði gripið.
Þá verður samráð haft við yfirvöld almannavarna og leitað álits jarðvísindamanna hvort að orsakir fyrir því að sprungan hafi komið í ljós geti verið aðrar en vatnsrof í kjölfar leysinga undanfarinna daga.
Einar sagði að setja þyrfti talsvert mikið efni til að fylla í gjánna, en einnig kæmi til greina að halda henni opinni. Menn yrðu að skoða vandlega hvaða leið yrði farin við að tryggja öryggi fólks þegar til framtíðar væri litið.