Ekki auðvelt að komast að niðurstöðu

Lee Buchheit kemur til fundarins í Háskólanum á Akureyri í …
Lee Buchheit kemur til fundarins í Háskólanum á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lee Buchheit, aðalsamningamaður Íslands í síðustu lotu Icesave samninganna, sagði á fundi í Háskólanum á Akureyri, að það væri alls ekki auðvelt fyrir íslensku þjóðina að komast að niðurstöðu í kosningunum sem framundan eru. Fjölmenni var á fyrirlestri Buchheits. 

Buchheit sagði í upphafi að vandamálið við bankahrunið væri fyrst og fremst það, að eftirlitsstofnanir stóðu sig ekki nógu vel; ekki bara á Íslandi heldur víða um heim. Hann tók Bandaríkin, Spán og Írland sem dæmi. Þá hefðu stofnanirnar ekki staðið sig nægilega vel eftir að þær áttuðu sig á stöðunni. 

Mikilvæg spurning strax í upphafi máls, sagði Buchheit, var hvort Íslandi bæri að greiða kröfuna miðað við þær evrópsku reglur sem giltu á sínum tíma. Enn væri það lögfræðilegt álitamál; margir þekktir lögfræðingur teldu svo vera en aðrir teldu þvert á móti, að Íslandi bæri hreint ekki að borga.

Hann sagði að velta mætti því fyrir sér hvort Bretar og Hollendingar snéru aftur að samningaborðinu ef íslenska þjóðin felldi samninginn, en taldi svo ekki vera. Þá yrði dómstólaleiðin farin.

Buchheit benti á að bresk og hollensk stjórnvöld greiddu þarlendum sparifjáreigendum út Icesave-eignir sínar en Íslendingar tryggðu allar innstæður íslenskra sparifjáreigenda. Mun EFTA-dómstóllinn fallast á að það sé í lagi? spurði Buccheit. Því sagðist hann ekki geta svarað; Íslendingar gætu unnið málið en þeir gætu líka tapað og færi svo gæti Ísland þurft að greiða tvöfalt hærri upphæð en nú hefur verið samið um.

Þýddi ekki að að rökræða um lögmætið

Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, ráðherra og sendiherra, og einn þeirra sem samþykktu inngöngu Íslands á Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma, spurði Buchheit m.a að því á fundinum hvort það hefði ekki verið hlutverk samninganefndar hans að deila við Breta og Hollendinga um lögmæti þess að Íslendingar þyrftu yfir höfuð að greiða þeim nokkuð. Hann spyrði vegna þess að augljóslega hefði niðurstaðan a.m.k. ekki verið sú. 

„Okkar verkefni var að ná eins hagstæðum samningi og nokkur kostur væri. Auðvitað ræddum við um þá um lögmætið en ljóst var að ekki þýddi að halda þeirri umræðu til streitu vegna þess að vitað mál var að þeir myndu aldrei gefa eftir í því efni,“ sagði Buchheit.

Buccheit sagði vissulega rétt, eftir að Tómas Ingi lagði fyrir hann þá spurningu, að efnahagsástandið í heiminum hefði komið Íslendingum til góða í þeim viðræðum sem hann leiddi. Ástandið hefði mjög breyst síðan nefnd Svavars Gestssonar hefði samið við Breta og Hollendinga. „Vextir eru í sögulegu lágmarki í heiminum þannig að auðvitað var hægt að semja um mun lægri vexti en áður.“

Spurður um áhrif Icesave-samningsins um efnahagsástand á Ísland, sagði hann aldrei hægt að fullyrða neitt, en erlend matsfyrirtæki teldu að hann hefði mikil áhrif á það hvort mat þeirra vegna Íslands myndi hækka eða lækka. Óvissan væri svo mikil eftir því hvort Íslendingar samþykktu samninginn eins og hann er nú eða ættu á hættu að þurfa að greiða mun meira.

Buccheit var spurður hvort sú ákvörðun Breta, að setja hryðjuverkalög á Íslendinga, stæðust örugglega alþjóðlög, og hvort nefndin hefði ekki beitt þeirri röksemd í viðræðunum. „Um þetta var auðvitað rætt. Brugðust þeir of harkalega við? Já, og ég tel að þeir myndu sjálfir viðurkenna það í dag. Mér finnst reyndar ótrúlegt að Bretar skuli ekki búa yfir annarri löggjöf til að frysta innistæður en þessari,“ sagði hann. Síðan sagði Buchheit að ekki hefði verið farið nákvæmlega í það, í viðræðunum við Breta, hvort hryðjuverkalögin stæðust skv. alþjóðalögum.

Tómas Ingi Olrich spurði Buccheit að því á fundinum – og sagðist vonandi ekki vera dónalegur – hvenær hann hefði farið úr því hlutverki að vera aðalsamningamaður Íslands yfir í að vera kynningarfulltrúi á vegum stjórnvalda. Jafnframt spurði Tómas Ingi rektor háskólans, Stefán Sigurðsson, hvenær hin hlið málsins yrði kynnt í skólanum.

„Ég reyni að vera ekki kynningarfulltrúi; ég er ekki með JÁ-merki í jakkanum. Háskólinn bauð mér að tala um samninginn, um kosti hans og galla, áður en þið takið ákvörðun. Ég tek ekki ákvörðun um það hvort hann verður samþykktur eða ekki og ég reyni að vera ekki hlutdrægur,“ sagði Buchheit.

Stefán rektor svaraði því til að háskólinn vildi leyfa öllum sjónarmiðum að heyrast innandyra og því væri öllum tekið fagnandi.

Reikningseigendur tóku áhættu

Buchheit var spurður hvort ekki væri rökrétt að fólk gerði sér grein fyrir því að þegar það legði fé inn á reikninga, þar sem mun hærri vextir væru í boði en annars staðar, þá væri áhættan að sama skapi meiri og fólk yrði að taka afleiðingunum af því. Hann tók undir þetta sjónarmið.

Sagði að í fyrstu eftir hrun hefðu þrír aðilar í raun átt hlut að máli: Í fyrsta lagi hinir erlendu sparifjáreigendur, í öðru lagi yfirvöld í Bretlandi og Hollandi og loks Íslendingar. Eftir að þjóðirnar tvær hefðu greitt þarlendum eigendum Icesave reikninganna út eignir sínar hefði málið hins vegar snúið öðru vísi við. Þá hefðu þjóðirnar tvær átt í deilu við Íslendinga, en ekki fólkið sjálft. Hefði hann verið við völd, sagðist Buchheit ekki hafa greitt hinum erlendu sparifjáreigendum allar þeirra innistæður. Skynsamlegra hefði verið af breskum og hollenskum yfirvöldum að endurrreikna upphæðirnar og greiða fólkinu. Þar með hefðu sparifjáreigendur tekið á sig hluta skellsins – sem hefði vissulega verið mun sanngjarnara, vegna áhættunnar sem eigendur reikninganna tók.

Buchheit sagðist telja, að þar sem eftirlitskerfið hefði í raun brugðist á Íslandi, Hollandi og Bretlandi, væri sanngjarnt að ábyrgðin skiptist með einhverjum hætti á löndin þrjú.

„Ef hollenskur banki byði Íslendingum reikninga með mjög háum vöxtum – sambærilegum við Icesave – og þúsundir manna settu ævisparnaðinn inn á þessa reikninga en tapaði öllu ef bankinn hryndi, þá sé ég fyrir mér að íslensk stjórnvöld myndu skipta sér af og reyna að hjálpa eigendum reikninganna. Myndu ræða við hollensk stjórnvöld og reyna að leysa málið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka