Samningamenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins settust niður við samningaborðið í kvöld til að ræða framhald kjaraviðræðna og næstu skref í viðræðum við ríkisvaldið.
Samninganefnd ASÍ kom saman til fundar fyrr í dag og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins fundaði síðdegis.
Samkvæmt heimildum mbl.is eru sjávarútvegsmálin enn sem fyrr þröskuldur þess að hægt sé að ljúka kjaraviðræðum, en ekki var minnst á sjávarútvegsmál einu orði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit að auka opinberar framkvæmdir um 12 milljarða. ASÍ og SA hafa lagt mikla áherslu á aðgerðir í atvinnumálum. Bæði samtökin hafa lagt áherslu á að settur verði kraftur í uppbyggingu álvers í Helguvík, en sú framkvæmd kallar á um 150 milljarða fjárfestingu. Kristján L. Möller alþingismaður sagði á Alþingi í vikunni að um 2000 manns gætu verið komnir með vinnu við framkvæmdir um 5 mánuðum eftir að skrifað hefði verið undir orkusamninga til álversins.