Tökulið frá Cooked in Africa films fylgir nú ævintýramönnunum Riann Manser og Dan Skinstad, sem réru nýverið frá Húsavík á tvöföldum kajak. Markmið þeirra er að sigla í kringum Ísland.
Cooked in Africa hyggst framleiða raunveruleikaþátt í 13 hlutum um ævintýri þeirra, sem nefnist Around Iceland on Inspiration.
Gert er ráð fyrir að ferðin taki um fjóra mánuði en þetta er í fyrsta sinn sem gerð er tilraun til hringróðurs um Ísland á þessum árstíma. Heildarvegalengdin er um 4.800 km.
Manser varð fyrstur til að hjóla hringinn í kringum Afríku en það ferðalag tók hann tvö ár. Manser varð einnig fyrstur til að róa einsamall á kajak í kringum Madagaskar, fjórðu stærstu eyju heims, og tók róðurinn um ellefu mánuði.
Félagi Mansers, Dan Skinstad, er með milda hreyfilömum og skerta hreyfigetu.