Neytendastofa fylgist með áfengisauglýsingum

Áfengi. F.v. Vodka, gin og rjómaríkjör.
Áfengi. F.v. Vodka, gin og rjómaríkjör. Árni Sæberg

Með frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum sem lagt var fyrir Alþingi í dag er ætlunin að færa eftirlit með banni við áfengisauglýsingum úr höndum lögreglu og í verkahring Neytendastofu sem verði veitt heimild til að ljúka málum varðandi slíkar auglýsingar með stjórnvaldssekt. Ekki hefur verið heimild til slíks í lögum til þessa.

Með lagabreytingunni er einnig ætlunin að gera bannið skýrara og skilvirkara án þess að breyta því efnislega.

Breytingin á eftirlitinu er talin til þess fallin að draga úr útgjöldum hjá lögreglu, ákærendum og dómstólum en fyrirséð þykir að færri mál færu fyrir dóm þar sem fullreyna þyrfti úrskurðarúrræði á stjórnsýslustigi. Kostnaður Neytendastofu mun ekki aukast að sama skapi þar sem stofan hefur nú þegar eftirlit með lögmæti efnis auglýsinga. Er talið að aukinn kostnaður myndi nema um hálfu stöðugildi lögfræðings við stofuna.

Samkvæmt frumvarpinu myndu sektir renna í ríkissjóð. Ekki er reiknað með að ríkissjóður þurfi að leggjast í aukin fjárútlát vegna hins breytta fyrirkomulags þar sem um er að ræða tilfærslu fjárheimilda milli stofnana.

Vonast er til að hið breytta fyrirkomulag fækki brotum til lengdar með skilvirkari varnarúrræðum

Undanfarin ár hafa að meðaltali hafa 23 mál er varða áfengisauglýsingar komið til kasta lögreglu og hafa þau gjarna fallið niður af einhverjum ástæðum áður en til ákæru eða meðferðar fyrir dómstólum hefur komið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert