Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna sýndu forystumönnum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins ekki á spilin á fundi í Stjórnarráðinu í gær. „Við fórum á þennan fund til að fá svör. Þau svör fengum við ekki,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Ákveðinn var nýr fundur í dag til að fara yfir drög að þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin er tilbúin að ráðast í til að liðka fyrir kjarasamningum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að viðræður um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði séu í biðstöðu eftir að forystumenn Samtaka atvinnulífsins tilkynntu ríkisstjórninni að ekki væri unnt að hefja lokaatlögu að gerð kjarasamninga vegna þess hve mörg stór mál eru í óvissu.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði eftir fundinn að ríkisstjórnin væri að leggja lokahönd á tillögur og útreikninga á áhrifum þeirra.