Allsherjarnefnd Alþingis hefur ekkert fjallað um umsóknir frá tíu fjársterkum Kanadabúum og Bandaríkjamönnum um íslenskan ríkisborgararétt. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, segir að nefndin muni taka þessar umsóknir fyrir í vor og afgreiða þær stuttu fyrir þinglok eins og hefðbundið er.
Róbert sagði að allsherjarnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis hefðu fengið kynningu frá fulltrúum þessara aðila í síðustu viku. Umsóknirnar sjálfar hefðu komið til nefndarinnar fyrir nokkrum vikum, en nefndin hefði ekkert rætt um þær.
Róbert sagði að Alþingi hefði veitt ríkisborgararétt á grundvelli þess að það væri einhver sérstakur akkur fyrir samfélagið að fá þá til landsins. „Við höfum vísað til þess að viðkomandi stæði framarlega í menningu og listum, hefði sérstök tengsl við landið og hefði framúrskarandi íþróttahæfileika. Ég veit hins vegar ekki til þess að veittur hafi verið ríkisborgararéttur á grundvelli þess að hann vildi fjárfesta á Íslandi og byggja upp atvinnurekstur,“ sagði Róbert. Hann sagði nauðsynlegt að nefndin mótaði sér einhverja stefnu um hvernig taka ætti af umsóknum af þessum toga.
Róbert sagði að í kynningunni í síðustu viku hefði komið fram að með því að gerast íslenskir ríkisborgarar væru þeir komnir inn á evrópska efnahagssvæðið og myndu njóta sömu réttinda og aðrir borgarar hér á landi og í Evrópu allri.
Róbert sagði að við værum nýlega búnir að ganga í gegnum umræðu um fjárfestingar Ross Beaty og Magma hér á landi. „Ég spyr sjálfan mig hvort það væri eitthvað verra að þessir einstaklingar hafi íslenskan ríkisborgararétt og flytjist til Íslands með fjölskyldur sínar heldur en að þetta séu einhverjir fjarlægir aðilar sem við höfum engan aðgang að.“