„Mikilvægi þess að ná hér kjarasamningum til þriggja ára er ekki síst fólgið í því að þá leggur hagkerfið af stað, vonandi á traustari forsendum, og þess vegna er ekki rétt að horfa bara á skammtímaáhrif á afkomu ríkissjóðs,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að loknum fundi þar sem fjallað var um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum. Þær munu hafa í för með sér tugmilljarða kostnað fyrir ríkissjóð.
Fundurinn fór fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og hann sátu, ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar, fulltrúar Alþýðusambands Ísland,
Samtaka atvinnulífsins og opinberra starfsmanna.
Sagði Steingrímur að réttlætanlegt væri að ríkið og opinberir aðilar tækju á sig auknar byrðar til skamms tíma sem skiluðu sér síðar í hagkerfið. „Við verðum, með öðrum orðum, að veðja á framtíðina og að hér komi
hagvöxtur og hjólin fari í gang og umsvifin í hagkerfinu aukist.“