Rúmlega 6 þúsund manns hafa skráð sig í hóp á Facebook þar sem lýst er yfir stuðningi við Priyönku Thapa, unga konu frá Nepal sem Útlendingastofnun hefur synjað um dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum.
Priyanka, sem er 22 ára, kom hingað til lands fyrir rúmu ári til þess að starfa sem au-pair en hefur síðan stundað nám við Háskólabrú Keilis með góðum árangri. Hún segir að snúi hún aftur heim til Nepals verði hún neydd til þess að giftast fertugum manni sem lofað hafi í staðinn að veita fjölskyldu hennar fjárhagslegt öryggi.
Útlendingastofnun segir í úrskurði sínum að ekki hafi verið sýnt fram á að Priyanka verði neydd í hjónaband snúi hún aftur til Nepal. Fram kom í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að Priyanka hafi í hyggju að áfrýja úrskurðinum til innanríkisráðuneytisins.