Fórnarlambi hótað margsinnis

Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. mbl.is/ÞÖK

Manni sem varð fyrir fólskulegri líkamsárás var hótað margsinnis áður en aðalmeðferð í málinu fór fram, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hann neitaði að tjá sig um málið fyrir dómi en sú ákvörðun hans að bera ekki vitni virðist hafa ráðið mestu um að Hæstiréttur sýknaði meintan árásarmann af ákæru í gær. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði hins vegar dæmt hann í 2 1/2 árs fangelsi og í héraðsdómnum segir að eina skýringin á því að hann neitaði að bera vitni sé sú að hann hafi óttast „það sem gæti hlotist af því að hann stæði við fyrri skýrslur sínar í málinu.“

 Maðurinn hafði gefið greinargóða skýrslu hjá lögreglu og nafngreint árásarmanninn. Á grundvelli skýrslunnar og rannsóknar í málinu var ákært í málinu. Þegar kom að aðalmeðferðinni, en þá eru vitni m.a. leidd fyrir dóm, neitaði hann hins vegar að tjá sig. Hann neitaði jafnframt að útskýra hvers vegna hann bæri ekki vitni.

 Sífellt meira ber á hótunum

Hvorki Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari hjá ríkissaksóknara, sem sótti málið í Hæstarétti né Sigríður Hjaltested, saksóknari hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, sem sótti málið í héraði, þekkja þess önnur dæmi að fórnarlömb líkamsárása hafi neitað að tjá sig fyrir dómi í máli sem þessu þegar komið er að aðalmeðferð.

Sigríður sagði að það hefði legið fyrir áður en hann kom fyrir dóminn að hann treysti sér ekki til að gefa skýrslu. Hann hefði beðist undan að mæta en eftir því var gengið og lögð áhersla á að hann segði þetta í áheyrn dómara. „Full ástæða var til að láta reyna á þetta mál þrátt fyrir að staðan væri þessi,“ sagði hún. Frekari skýringar vildi Sigríður ekki gefa en kvaðst geta sagt að vissulega væri hægt að greina henni frá ákveðnum hlutum í trúnaði og eðli máls samkvæmt færi það ekki lengra.

 Hún sagði hins vegar aðspurð að sífellt algengara væri að fórnarlömbum og vitnum í sakamálum væri hótað, m.a. með því að ráða þekkta handrukkara til að hafa í heitingum við þau. „Það ber alltaf meira og meira á því að menn reyna skipuleggja að hafa áhrif á vitni með því að leggja þrýsting á þau þannig að þau dragi jafnvel kærur til baka,“ sagði hún.

Sætir ákæru fyrir rangan framburð fyrir dómi

 Samkvæmt lögum ber mönnum að bera vitni í dómsmálum, nema málið varði ættingja, maka o.þ.h. Sigríður óskaði ekki eftir að beitt yrði sektum til að þrýsta á um að hann bæri vitni. Hún sagði að slíkt ætti fremur við að sínu mati ef um væri að ræða lykilvitni sem vildi skaða málatilbúnað ákæruvaldsins án nokkrrar sjáanlegrar ástæðu. „Ég hafði ekki geð í mér í slíkt í þessu máli,“ sagði hún. 

Lögregla hefði séð dæmi þess að menn rukki venjulegt fólk um einhverjar „bull“-skuldir og gangi langt í því. Því mætti geta sér til hversu menn gengju langt í að innheimta fíkniefnaskuldir, en skuldin var sögð vegna fíkniefna í þessu máli. Það væri mjög hart að mál eins og þetta hefði farið í vaskinn en í sjálfu sér gátum við allt eins búist við því. Eins og við sjáum á dómi héraðsdóms og Hæstaréttar getur mat dómara verið mismunandi, sagði Sigríður.

 Málið er ekki einungis óvenjulegt fyrir þessar sakir heldur einnig þær að eitt vitni í málinu sætir nú ákæru fyrir rangan framburð fyrir dómi. Samkvæmt framburði hans var árásarmaðurinn með honum þegar árásin var framin. Hann veitti árásarmanninum með öðrum orðum fjarvistarsönnun. 

 Framburður þessa vitnis tók reyndar miklum breytingum og í héraðsdómi er hann að engu hafður.

Bakkaði með fyrri framburð

Eitt af því sem gagnrýnt var af Hæstarétti var að farsími hins ákærða var ekki tekinn af honum eftir að hann var handtekinn og fram kom að hann var í símasambandi við manninn sem veitti honum fjarvistarsönnun.

Hjá lögreglu dró hann framburð sinn um að hann hefði verið með ákærða 29. janúar 2009, þegar árásin var gerð.  „Ég kom ekki nálægt þessu.  Ég bakka með fyrri framburð minn og biðst afsökunar á því að hafa greint rangt frá,“ hefur lögregla eftir honum.  „Sagðist hann ekki hafa hitt ákærða 29. janúar.  Sagði hann ákærða hafa hringt og beðið um að hann gæfi sér fjarvistarsönnun þennan dag, enda mætti hann búast við því að lögreglan myndi hafa samband.  Ákærði hefði sagt hvað hann skyldi segja lögreglunni en hefði ekki sagt hvers vegna hann þyrfti þessa fjarvistarsönnun, er haft eftir honum í skýrslu.

Fyrir dómi breytti hann framburði sínum aftur og sagðist vissulega hafa verið með ákærða umræddan dag.

Hæstiréttur gagnrýnir rannsókn lögreglu

Í dómi Hæstaréttar er fallist á að sannað sé að maðurinn hafi orðið fyrir líkamsárás á heimili sínu 29. janúar 2009. Í dómnum eru ýmislegt fundið að rannsókn lögreglu á málinu. „Ber þar helst að nefna að hún yfirgaf vettvang og kveðst hafa skilið hann eftir óvarinn allt þar til sá lögreglumaður er annast átti vettvangsrannsókn kom þangað nokkrum klukkustundum síðar. Ekki eru upplýsingar um hvort einhver hafi farið inn í læst húsið á þessum tíma. Af myndum sem teknar voru á vettvangi sjást augljóslega nokkur skóför í blóði á gólfi. Engin rannsókn fór fram á þessum skóförum eins og skylt var,“ segir m.a. í dómi Hæstaréttar. 

Hæstiréttur bendir einnig á að eftir að ákærði var handtekinn 3. febrúar 2009 og færður í fangageymslu lögreglunnar, hafði hann farsíma með sér í fangaklefann og hringdi þar nokkrum sinnum úr honum, meðal annars í vitni sem hann taldi geta tryggt fjarvistarsönnun sína. Daginn eftir var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald þar sem hann var talinn vera undir rökstuddum grun um líkamsárás og ætla mætti að hann myndi torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á þann mann sem með honum hafi verið á heimili fórnarlambsins umrætt sinn. Þá er ósamræmi í gögnum um rannsókn fingrafara á glösum sem hald var lagt á.

Svo segir í dómnum að ekki verði séð að vitnið hafi gefið skýringar á því hvers vegna það neitaði gefa skýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir vitnaskyldu sína Við meðferð málsins hafi þess hvorki verið freistað að óska eftir að ákærði viki úr þinghaldi meðan vitnið gæfi skýrslu, né farið fram á að vitninu yrði gerð sekt vegna brota á vitnaskyldu sinni.

„Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar eru síðan gerðar undantekningar frá þessari meginreglu þegar sérstaklega stendur á. Í síðastnefndu ákvæði, sem héraðsdómur vísar til, kemur fram að hafi vitni ekki komið fyrir dóm og þess sé ekki kostur við meðferð máls, en skýrsla hafi verið gefin hjá lögreglu meðan málið var til rannsóknar, meti dómari hvort slík skýrsla hafi sönnunargildi og hvert það skuli vera. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að ákvæðið eigi hér við og er þá haft í huga að verjanda gafst ekki kostur á að spyrja vitnið um þýðingarmikil atriði í vörn ákærða,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Ákæruvaldið verði að bera hallan af ófullnægjandi rannsókn og meðferð málsins í héraði og ekki hafi verið færðar fullnægjandi sönnur á sekt mannsins. 

Sigríður sagði að efni væru til að gagnrýna ákveðna annmarka á rannsókninni. Því miður hefði ekki verið hægt að bæta úr þeim öllum og að sjálfsögðu þurfi að vanda til verka í málum sem þessum. Enginn hefði hins vegar séð fyrir hvernig málið myndi þróast.

  Lögregla fer yfir málið

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að embættið væri þegar byrjað að fara yfir rannsókn á málinu og athugasemdir Hæstaréttar. Lögregla muni skoða hvað hafi farið úrskeiðis og kanna hvort lögregla þurfi að breyta einhverju í sínu verklagi eða hvort um hafi verið að ræða mistök í þessu tiltekna máli. 

 Hægt er að lesa dóm Hæstaréttar hér.

 Hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson ásamt Halldóri Björnssyni, dómstjóra á Austurlandi dæmdu málið. Sveinn Andri Sveinsson var verjandi meints árásarmanns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka