Áhugi lífeyrissjóðanna á að koma að fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar hefur vakið mikla athygli en fulltrúar þeirra munu í dag eiga fund með Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráli um málið.
Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fagnaði í gær þessu frumkvæði Landssamtaka lífeyrissjóða, sagðist hafa verið að bíða eftir því að sjóðirnir „færu að hreyfa sig inn í orkugeirann“. Tilefni þessara þreifinga er slæm fjárhagsstaða Orkuveitunnar sem að sögn ráðamanna fyrirtækisins getur nú ekki fengið nein erlend lán til framkvæmda.
En það sem ekki síst hangir á spýtunni er að Hverahlíðarvirkjun mun ef til vill útvega orku til væntanlegrar verksmiðju Norðuráls í Helguvík. Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið í tengslum við álverið í Helguvík er að óvíst sé hvort hægt sé að útvega því næga orku og hefjist framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun gæti dregið úr þeirri óvissu. Íbúar í Reykjanesbæ, þar sem atvinnuleysi er nú meira en annars staðar á landinu, horfa því vonaraugum til lífeyrissjóðanna.
Lífeyrissjóðirnir munu nú eiga, auk alls annars, um 180 milljarða króna á vöxtum í banka, atvinnulausa peninga eins og það hefur verið orðað þar sem þeir eru ekki notaðir til að skapa störf.
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir Hverahlíðarmálið vera á algeru byrjunarstigi. „Í fyrsta lagi þarf að skoða hvort þetta sé fýsilegur kostur, hvað með raforkusamninginn, hvað kostar þetta, hver er arðsemin, hvað eru þeir búnir að leggja út, verður þetta hlutafélag, kæmi Orkuveitan að því, einhverjir aðrir aðilar og þannig koll af kolli,“ segir Arnar.
Framkvæmdir á Hengilssvæðinu hafa tafist vegna fjárskorts og margvíslegrar óvissu. Tvær túrbínur sem nota á í Hverahlíð hafa þó verið pantaðar og hefur verið borgað inn á þær. Hluti af orkunni í fyrsta áfanga verksmiðju Norðuráls í Helguvík mun koma af Hengilssvæðinu, Orkuveitan hefur skuldbundið sig í þessum efnum. Þegar er búið að bora talsvert á Hverahlíðarsvæðinu og vitað að þar er mikil varmaorka, stefnt er að framleiðslu upp á 90 megavött.
Fyrsti áfangi álversins í Helguvík mun þurfa um 150 megavött en hversu öruggt er að Hverahlíðarorkan verði nýtt í Helguvík? Þess verður að geta að Hjörleifur Kvaran, þáverandi forstjóri Orkuveitunnar, sagði í fyrra að ekki hefði verið gerður skuldbindandi samningur við Norðurál um kaup á orku frá Hverahlíðarvirkjun, en fyrirhugað væri að orka frá henni yrði notuð í annan áfanga álversins. Þar sem ekki væri búið að tryggja fjármögnun versins hefði ekki verið hægt að semja um orkukaupin og Hverahlíðarvirkjun væri auk þess ekki inni á þriggja ára framkvæmdaáætlun Orkuveitunnar.
Sveitarfélagið Ölfus hefur auk þess forgang að orkunni og verði samningur við fyrirtækið Thorsil, sem vill framleiða sólarkísil, endurnýjaður gæti Hverahlíðarorkan farið þangað og ekki til Helguvíkur.