„Þessi dagur sker úr um framhaldið“

Forystumenn ASÍ koma til fundar við ríkisstjórnina í ráðherrabústaðnum við …
Forystumenn ASÍ koma til fundar við ríkisstjórnina í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. mbl.is/Golli

„Ég hef trú á að fundahöld í dag muni skera úr um hvort það verður framhald í kjaraviðræðum eða hvort hér verða slit,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Hann útilokar ekki að fundað verði um helgina ef mál þokist áfram í dag.

Öll landssambönd ASÍ hafa setið á fundum í dag til að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar og næstu skref í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samningamenn ASÍ setjast síðan við samningaborðið með SA kl. 15 í dag.

Sigurður sagði að ASÍ hefði átt í óformlegum viðræðum við stjórnvöld í dag enda hefði komið fram í gær að ekki væri um endanlegar tillögur að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Sigurður sagðist vilja sjá breytingar á ýmsum atriðum, en hann nefndi sérstaklega atvinnumál, lífeyrismál og atvinnuleysistryggingamál.

ASÍ hefur lagt áherslu á að farið verði út í fjárfestingar sem örvi hagvöxt og dragi úr atvinnuleysi. Sigurður var spurður hvort það væri rétt að ekki væri gert ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík í tillögum stjórnvalda.

„Það er rétt að nafnið Helguvík kemur ekki fyrir í þessu plaggi, en það er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum í orkuiðnaði og ég geri ráð fyrir að menn ætli að selja þá orku sem verður virkjuð,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert