Úrskurðir styrkja forsendur Icesave-samninga

Icesave-samninganefndin.
Icesave-samninganefndin. mbl.is/Kristinn

Samninganefnd Íslands um Icesave segir, að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun um heildsölulán styrki forsendur Icesave-samninganna og dragi úr réttaróvissu um stöðu þeirra sem gera kröfu til að njóta forgangs við úthlutun úr búi bankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu, sem samninganefndin birtir á vef fjármálaráðuneytisins í dag. Segir þar, að niðurstaða dómsins gefi sterkar vísbendingar um að þær meginforsendur sem samninganefndin hafi byggt mat sitt á samningunum á, séu í senn traustar og varfærnislegar.

Nefndin segir, að úrkurðirnir dragi úr réttaróvissu um stöðu þeirra sem geri kröfu til að njóta forgangs við úthlutun úr búi Landsbankans. Slitastjórn geti að öllum líkindum hraðað úthlutun úr búi bankans frá því sem samninganefndin hefur gert ráð fyrir.

Við það dragi markvert úr kostnaði ríkisins af vaxtagreiðslum af höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar. Það sé mat samninganefndarinnar að áhrif flýtingar útgreiðslna lækki enn hreinan kostnað af samningunum.

Tilkynning samninganefndarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert