Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram á Alþingi beiðni um að fjármálaráðherra geri skýrslu um mat á áhrifum þess á íslensk fyrirtæki, að Bretar beittu lögum um varnir gegn hryðjuverkum til að frysta íslenskar eignir í Bretlandi eftir bankahrun.
Fram kemur í beiðninni, að i skýrslunni væri gagnlegt að fram kæmu meðal annars tölur um beint fjárhagslegt tjón fjörutíu stærstu inn- og útflutningsfyrirtækja landsins frá haustinu 2008 sem rekja megi til beitingar laganna.
Vísað er til rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem segir, að beiting laganna hafi verið til þess fallin að valda íslenskum fyrirtækjum bæði í Bretlandi og annars staðar miklu tjóni. Miklu máli skipti fyrir hagsmuni Íslands, bæði í þjóðhagslegu og alþjóðlegu samhengi, að vitneskja sé til staðar um afleiðingar af beitingu hryðjuverkalaganna, hversu lengi áhrifanna gætti og hvort þeirra gæti jafnvel enn.
Skýrslubeiðnin