Besti flokkurinn nýtur 19% fylgis. Ef kosið væri nú fengi flokkurinn helmingi færri borgarfulltrúa en hann fékk í sveitastjórnarkosningunum á síðasta ári, að því er fram kemur í nýrri Gallupkönnun. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV.
Besti flokkurinn hlaut 35% fylgi í kosningunum og er því óhætt að tala um fylgishrun.
Þá segir að fylgi
Samfylkingarinnar hafi aukist um tvö prósentustig frá kosningunum og er nú 21%. Þetta þýði að meirihlutinn haldi ekki velli. Hvor flokkur fengi þrjá fulltrúa, en Besti flokkurinn fékk sex fulltrúa eftir síðustu kosningar.
Þá segir að bæði Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sæki í sig veðrið. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi aukist um fimm prósentustig og mælist nú 40%. Flokkurinn fái því sjö menn inn í borgarstjórn og muni litlu að hann nái hreinum meirihluta.
VG er með 13% fylgi nú en var með 7% í kosningunum í fyrravor.
Könnunin, sem var netkönnun, var gerð dagana 28 febrúar til 31. mars. Í úrtakinu voru 1.800 Reykvíkingar en svarhlutfallið var rúm 60 prósent.