Hjúkrunarheimilið Sólvangur í Hafnarfirði sendi 65 starfsmönnum sínum uppsagnarbréf um mánaðamótin.
Þar af er 15 sagt upp störfum en hinum er boðið að starfa áfram á Sólvangi gegn því að lækka starfshlutfall sitt um 10-20% í nýjum ráðningarsamningi. Um er að ræða starfsfólk á öllum deildum, frá stjórnendum til ófaglærðs starfsfólks, að langmestu leyti konur.
Þar sem um svo marga starfsmenn er að ræða varð Sólvangur að tilkynna hópuppsögn til Vinnumálastofnunar. Um 90 stöðugildi hafa verið á Sólvangi en að sögn Árna G. Sverrissonar forstjóra mun stöðugildum fækka um 19 með þessum aðgerðum. Um leið verða gerðar breytingar á vaktafyrirkomulaginu sem hefur í för með sér að starfsfólki í 100% vinnu er boðið 80% hlutfall.