Samtök atvinnulífsins kynntu sjávarútvegsráðherra í gær tillögur að útfærslu samningaleiðar í sjávarútvegi. Eru tillögurnar hugsaðar sem málamiðlun SA í deilu útvegsmanna og stjórnvalda um breytingar á kvótakerfinu. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur jafnframt opnað á að áfangaskipta framkvæmd breytinganna.
Forystumenn SA fóru í gær á fund sjávarútvegsráðherra til að kynna tillögur sínar að málamiðlun í deilunni. Þær fela í sér nokkra tilslökun frá fyrri afstöðu útvegsmanna, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Sjávarútvegsráðherra svaraði tillögunum ekki efnislega á fundinum og ekkert var ákveðið um framhaldið. Jón sagði í samtali við Morgunblaðið að áform um breytingar á stjórnkerfinu stæðu „en við getum þurft að skoða í hvaða áföngum þau nást fram.“
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði að þau hefðu átt ágætis fund með ráðherra. „Það mun reyna á þetta mál fyrr eða síðar enda verður það hluti af lausninni,“ sagði hann.