Laugavegurinn var frátekinn fyrir umferð þarfasta þjónsins um tíma í dag. Fjöldi hestamanna var í skrautreið sem er liður í Hestadögum og þar var þjóðleg stemmning af því tilefni.
Skrautreiðin hófst við Umferðarmiðstöðina. Farið var um Lækjargötu og upp Bankastræti og Laugaveg.
Góð stemmning var á Laugaveginum og fólk beið á gangstéttum til að fylgjast með. „Langur laugardagur“ er í miðbænum og margt um að vera.
Skrautreiðin hélt áfram og áfangastaðurinn er Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Þar verður fjölskylduhátíðin „Gobbidí gobb“ frá klukkan 13 til 16. Þar eru hestar teymdir, markaðstorg, sögusýning og ýmislegt fleira.
Hestadögum lýkur síðan með ístöltsýningu í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. Þar mæta til leiks allra bestu hestar og knapar landsins.