Umferðin um Hringveginn dróst mikið saman í marsmánuði, miðað við sama tíma á síðasta ári, eða um rúm 15%. Mestur er samdrátturinn á Suðurlandi en mikil umferð vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi í fyrra er talin ýkja þær tölur nokkuð.
Vegagerðin birtir reglulega upplýsingar um þróun umferðar á sextán völdum talningarstöðum á Hringveginum, í öllum landshlutum.
Umferðin dregst að meðaltali saman um 15,5%, frá mars á síðasta ári. Mesti samdrátturinn er á Suðurlandi, 28,5%. Á Vesturlandi og Norðurlandi sýna tölur 15-17% samdrátt og 11-12% á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu.
Í frétt á vef Vegagerðarinnar er vakin athygli á því að alltaf eru miklar sveiflur í umferðinni þessa mánuði. Veðrið hefur sín áhrif og umferðin breytist eftir því hvenær páskarnir eru. Páskarnir eru sem kunnugt er í apríl í ár.
Eigi að síður eru þær tölur um minnkun umferðar sem þessar mælingar sýna fáséðar og eindæmi frá því að Vegagerðin fór að taka saman upplýsingar um umferð með þessum hætti. Vakin er athygli á að miklar bensínhækkanir að undanförnu og almennur samdráttur í þjóðfélaginu geti skýrt þessar breytingar, að hluta til að minnsta kosti.
Þróunin það sem af er ári getur að mati Vegagerðarinnar bent til þess að akstur dragist saman um 8-8,5% á þessu ári, miðað við það síðasta. Yrðu það sögulegar breytingar.