„Við erum með óskir um breytingar á því sem sett var fram,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) en fulltrúar sambandsins og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hafa fundað í dag í Karphúsinu um tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum.
Á fundinum var einnig fjallað um lokasprett í viðræðum um gerð nýs kjarasamnings en stefnt er að því að hefja hann á mánudag.
Að sögn Vilhjálms þykir aðilum vinnumarkaðarins tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir of óljósar til að ná markmiðum sínum og vilja þeir skerpa á ýmsu í þeim. Hann segir mikilvægt að aðgerðirnar verði nógar til að skapa það traust sem þarf til að auka fjárfestingar hér á landi. Samkvæmt yfirlýsingum stjórnarinnar um aðgerðirnar er stefnt að því að fjárfesting aukist úr 13% í 18%.
Vilhjálmur reiknar með að ríkisstjórninni verði kynntar breytingartillögurnar og aðrar athugasemdir á morgun. Fundað verði með forsvarsmönnum hennar í framhaldinu.