Aðilar vinnumarkaðarins funda í dag með embættismönnum úr stjórnsýslunni um breytingar á og athugasemdir við tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum. Ríkisstjórninni verða sendar tillögurnar í dag. Aðgerðir stjórnvalda voru kynntar á fimmtudag en ekki liggur fyrir hvenær fundað verður með oddvitum stjórnarinnar.
„Þetta verða óformlegir fundir, menn stinga saman nefjum og fylgja textanum eftir með skýringum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
„Við sendum [ríkisstjórninni] þetta svo hún geti farið að rýna í þetta en við gerum ekki ráð fyrir að fá nein svör á punktinum,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóra SA.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa undanfarna daga fundað og stillt saman strengi svo að samtökin geti verið samstíga í samskiptum sínum við ríkisstjórnina. Að sögn Vilhjálms hefjast síðustu fundahöld félaganna um aðgerðirnar kl. 13.
„Við höfum verið að reyna að samræma áherslur. Eins og í atvinnumálunum, þar höfum við lagt meiri áherslu á að hafa [skýrt] umfang og ramma og skuldbingar stjórnvalda um það meðan [SA] hefur viljað hengja þetta á einstaka verkefni. Við höfum verið að ræða það hvernig skynsamlegt sé að gera þetta,“ segir Gylfi og kveður samvinnuna hafa gengið nokkuð vel. „Menn eiga ekki í ágreiningi um grunninn, um mikilvægi þess að það verði alvöru innspýting í hagkerfið.“