Björgunarsveitarmenn fundu tvo karlmenn heila á húfi við Þingvallavatn rétt fyrir kl. eitt í nótt, en mennirnir höfðu þá róið í land eftir að bátur þeirra hafði orðið vélarvana á vatninu. Hafði leit að mönnunum staðið yfir í rúmar tvær klukkustundir.
Svartamyrkur var á svæðinu og mennirnir ekki með neitt ljós á sér. Þeir voru hins vegar með síma og gátu látið vita af sér. Björgunarsveitarmenn sigldu fram hjá ströndinni og lýstu þeir til mannanna sem fundust loks.
Að sögn lögreglu fóru voru mennirnir að prófa vél þegar þeir lögðu af stað út á vatnið á litlum vélbát um kl. 19 í gærkvöldi, en þeir gistu í sumarbústað í Miðfellslandi. Aðstandendur heyrðu í þeim um kl. 22 en stuttu síðar náðist ekkert í þá og urðu aðstandendurnir því áhyggjufullir og höfðu samband við lögreglu.
Björgunarsveitir frá Selfossi, Grímsnesi, Laugarvatni og Eyrarbakka voru í framhaldinu ræstar út. Þær náðu sambandi við mennina sem voru að róa í land.
Mennirnir fundust svo töluvert frá þeim stað þar sem þeir héldu að þeir væru niðurkomnir.