Tveimur karlmönnum sem voru á vélarvana bát á Þingvallavatni í kvöld hefur tekist að róa í land. Mennirnir eru í símasambandi við lögreglu og björgunarsveitarmenn á vettvangi, en þeir vita ekki nákvæmlega hvar þeir eru enda svartamyrkur á svæðinu.
Mennirnir eru ekki með ljós á sér en björgunarsveitarmenn reyna nú að finna út hvar þeir eru nákvæmlega staddir.
Vélbátur mannanna varð vélarvana á vatninu fyrr í kvöld. Aðstandendur þeirra í bústað við Þingvallavatn höfðu samband við lögreglu um kl. 22 í kvöld þegar ekkert hafði til þeirra spurst um stund. Lögreglan náði sambandi við þá og voru þeir þá að reyna róa í land, sem gekk erfiðlega en tókst að lokum að sögn lögreglu.
Ekkert amar að mönnunum en nú þræða björgunarsveitarmenn ströndina í þeim tilgangi að finna mennina, en þeir reyna að lýsa til þeirra. Talið er að þeir séu við sunnanvert vatnið í námunda við Miðfellsland. Mönnunum hefur verið sagt að halda kyrru fyrir.
Björgunarsveitarmenn á bátum frá Selfossi, Grímsnesi, Laugarvatni og Eyrarbakka eru á vettvangi.