Tvöfalt fleiri atkvæði utan kjörfundar

Utankjörfundarkosning stendur nú yfir í Laugardalshöll vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.
Utankjörfundarkosning stendur nú yfir í Laugardalshöll vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. mbl.is/Kristinn

Miklu fleiri kjósendur hafa kosið utan kjörfundar hjá sýslumanninum í Reykjavík vegna komandi atkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna en í sambærilegri atkvæðagreiðslu fyrir ári.

Utankjörfundaratkvæðagreiðslan var flutt í Laugardalshöll 28. mars en hafði áður staðið um tíma a skrifstofu sýslumanns. 

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi höfðu 6317 kjósendur kosið, þar af 5618 á staðnum en 699 höfðu sent atkvæði sín í pósti.

Atkvæðagreiðslan gengur vel fyrir sig, samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns. í gær höfðu 325 atkvæði komið um kvöldmat og engar biðraðir myndast.

Þátttakan er meira en tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra. Fimm dögum fyrir kjördag í mars 2010 höfðu 2341 greitt atkvæði en nú, sex dögum fyrir kjördag, hafa 6317 greitt atkvæði.

Flest atkvæðin eru úr Reykjavíkurkjördæmum. Einnig er kjörkassi í Laugardalshöll fyrir Suðvesturkjördæmi. Póstsenda þarf atkvæði fólks úr öðrum kjördæmum.

Kjörstaður í Laugardalshöll er opinn alla daga frá klukkan 10 til 22 en á kjördag, laugardaginn 9. apríl, til klukkan 17. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert