11-12% hækkun launakostnaðar

Stíf fundarhöld hafa verið í húsnæði ríkissáttasemjara seinustu daga.
Stíf fundarhöld hafa verið í húsnæði ríkissáttasemjara seinustu daga. mbl.is/RAX

Þær hugmyndir um launahækkanir sem Samtök atvinnulífsins lögðu fyrir viðsemjendur sína í gær gera ráð fyrir 11-12% hækkun launakostnaðar á þriggja ára samningstímabili.

Um er að ræða almennar launahækkanir, krónutöluhækkanir taxta og sérstaka hækkun lágmarkslauna, auk eingreiðslu til launafólks þegar samkomulag liggur fyrir, sem á að brúa bilið fram að gildistöku langtímasamnings í júní. Enn er þó alls óvíst hvort samningar nást á þessum nótum skv. heimildum mbl.is en beðið er viðbragða ríkisstjórnarinnar við tillögum aðila vinnumarkaðarins um breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í seinustu viku.

Þverrandi líkur eru nú taldar á að takist að ljúka gerð kjarasamninga fyrir næstu helgi. Ekki er reiknað með því að forystumenn samtakanna hitti ráðherra fyrr en í fyrsta lagi á morgun og á fimmtudag halda Samtök atvinnulífsins aðalfund sinn.

Í dag funda samninganefndir einstakra landssambanda og félaga með viðsemjendum um sérmál en ekki hefur verið ákveðið hvort samninganefndir ASÍ og SA koma saman í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert