Samtök atvinnulífsins leggja til að afnotatími útgerða af aflahlutdeild verði til a.m.k. 35 ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tillögum sem samtökin hafa kynnt ríkisstjórninni.
Í fréttatilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að með tillögunum sé verið að stíga skref til sátta um efnislega útfærslu samningaleiðar í sjávarútvegi. Tillagan feli í sér grundvallarbreytingar á stjórn fiskveiða frá því sem nú er og komið sé verulega til móts við sjónarmið stjórnarflokkana í þessum efnum. „SA telja að nú sé einstakt tækifæri til að ná nauðsynlegri sátt um málefni sjávarútvegsins. Samtök atvinnulífsins hafa fulla trú á að ríkisstjórnin muni taka í útrétta sáttahönd atvinnulífsins í þessum efnum.“
Samtök atvinnulífsins leggja til að gerð verði sú grundvallarbreyting að í stað þess að afnot aflahlutdeildar séu ótímabundin verði gerðir samningar á milli ríkisins og útgerða um tímabundin afnot útgerða af aflahlutdeild.
Samtökin leggja til að afnotatími útgerða af aflahlutdeild verði til a.m.k. 35 ára. Samningarnir feli í sér að þegar hluti samningstímans er liðinn, t.a.m. þegar hann verður hálfnaður, þá hafi útgerðir rétt til framlengingar þannig að jafn langur tími og liðinn er bætist við þann tíma sem eftir er. Með þessu móti væri tekið upp sambærilegt fyrirkomulag í sjávarútvegi og tillögur hafa verið um varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins.
Samtök atvinnulífsins leggja til að lagaákvæði um veiðigjald verði tekin til endurskoðunar þannig að stofn þess verði hagnaður útgerðarinnar í stað reiknaðrar framlegðar eins og nú er.
„Á Íslandi er rekinn öflugur, sjálfbær og arðbær sjávarútvegur. Á íslensk útgerðarfyrirtæki er lagt sérstakt gjald, svonefnt veiðigjald, hátt í þrjá milljarða króna á fiskveiðiárinu 2010 - 2011. Víða er sjávarútvegur ríkisstyrktur um háar fjárhæðir. Mikilvægt er að íslenskur sjávarútvegur geti áfram lagt sem mest til samfélagsins og því er nauðsynlegt að rekstrarskilyrði hans verði sem best,“ segir í yfirlýsingu SA.