Fréttaskýring: Beðið svara ríkisstjórnar

Þungt var yfir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, og Vilhjálmi Egilssyni, …
Þungt var yfir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, og Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA, í Karphúsinu um tíma í gær.

Samninganefndir Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins virðast komnar á sömu blaðsíðuna varðandi launabreytingar í nýjum þriggja ára kjarasamningi eftir verulegar sviptingar sem urðu í gær.

Tilboð vinnuveitenda hjó á hnútinn en þeir telja sig hafa teygt sig svo langt að þeir geti ekki staðið undir kostnaðarhækkunum nema sköpuð verði góð skilyrði fyrir aukin umsvif í atvinnulífinu og atvinnutryggingagjald verði lækkað. Settar hafa verið fram ákveðnar óskir um aðkomu stjórnvalda.

Eftir þjark um helgina um launalið væntanlegra samninga hitnaði verulega í kolunum á sunnudagskvöldið vegna ágreinings um fyrirkomulag launahækkana. ASÍ lagði þunga áherslu á að auk almennra hækkana sem tryggðu hag meðaltekjufólks yrðu lægstu laun hækkuð sérstaklega með lágmarkstekjutryggingu. Markmiðið er að lægstu laun fyrir dagvinnu verði nálægt 200 þúsund krónum undir lok samningstímans.

Erfitt fyrir ákveðnar greinar

Þetta hefur staðið verulega í samninganefnd SA vegna þess að slíkar hækkanir eru taldar afar erfiðar fyrir mörg fyrirtæki og ákveðnar atvinnugreinar, svo sem verslun, veitingar, samgöngur og matvælaiðnað, og hafa mikil áhrif á rekstur á landsbyggðinni.

„Það er erfitt að sjá hvernig hægt er að samræma þetta markmiðum um verðbólgu. Eftir því sem gengið er nær fyrirtækjum sem starfa á heimamarkaði, þeim mun meiri áhrif hlýtur það að hafa á verðlag,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Viðræðurnar héngu á bláþræði í gærmorgun og mikill titringur var meðal samningamanna ASÍ.

SA komu með útspil eftir hádegið sem var rætt í samninganefndum landssambanda ASÍ og á milli samninganefnda ASÍ og SA fram á kvöld. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að með tilboðinu hafi SA komið verulega til móts við ASÍ.

Útspil SA var þó ekki endanlegt tilboð enda háð þeim fyrirvara að samtökin fengju betri trú á þeirri þróun sem gert er ráð fyrir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, um aukin umsvif í efnahagslífinu. Vilhjálmur nefnir þrjú atriði í því sambandi: Almenn skilyrði efnahagslífsins svo sem skattamál og gjaldeyrishöft þar sem lækkun atvinnutryggingagjalds er lykilatriði, sjávarútvegsmálin, og stór fjárfestingarverkefni í atvinnulífinu. Sú afstaða er óbreytt að SA telur óhugsandi að ganga frá kjarasamningum til langs tíma nema óvissunni í sjávarútvegsmálum verði aflétt. Þá leggur Vilhjálmur þunga áherslu á að til þess að geta staðið undir þeim launahækkunum sem rætt er um þurfi fjárfestingar í atvinnulífinu. Það komi hagkerfinu í gang, skapi störf og tekjur og eftirspurn meðan á þeim stendur og hjálpi atvinnulífinu að byggja sig upp og búa til arðbær störf til langs tíma.

„Ég tel að tekist hafi að ýta þessum málum verulega áfram en það er einnig ljóst að það þarf að fá niðurstöðu frá stjórnvöldum varðandi ákveðin atriði,“ segir Gylfi.

Áfram setið við

SA og ASÍ hafa verið að vinna sameiginlegar athugasemdir og breytingartillögur við væntanlega yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hafa þær verið sendar stjórnarráðinu jafnóðum. Þannig hefur skilaboðum vegna hugmynda SA um lausn deilunnar verið komið á framfæri.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar fara einn af öðrum til Ísafjarðar þar sem ríkisstjórnin fundar eftir hádegið. Ekki er því búist við svörum í dag. Þó er reiknað með að forystumenn ASÍ og SA fundi með embættismönnum. Þá verður unnið í skjalagerð og frágangi ýmissa mála í smærri hópum.

Hvorki Vilhjálmur né Gylfi vildu spá því hvenær von væri á að málin skýrðust.

Strandar ekki hjá okkur

„Það er gott að þeim miðar áfram með samningana en þeir mega ekki vera of uppteknir af því sem er hjá öðrum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í gærkvöldi, staddur á Ísafirði en ríkisstjórnin fundar þar í dag. Hann sagði að þær tillögur samningsaðila sem sendar voru í fyrradag hefðu verið til skoðunar í gær. „Við förum yfir þetta en erum ekki komin þangað að það strandi á einhverju frá okkur,“ sagði fjármálaráðherra og lagði áherslu á að yfirlýsingin væri ríkisstjórnarinnar. „Ég vona að það vinnist vel úr þessu í vikunni,“ bætti hann við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert