Hugmyndir um launahækkanir sem Samtök atvinnulífsins lögðu fyrir viðsemjendur sína í gær, til að höggva á hnút sem myndast hafði í viðræðunum, er háð því að ríkisstjórnin fallist á lækkun atvinnutryggingagjalds og að kveða fastar að orði um auknar fjárfestingar til að koma hjólum atvinnulífsins betur af stað en gert er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því fyrir helgi.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að viðræðurnar hafi hangið á bláþræði í gærmorgun vegna ágreinings um launaliðinn, einkum um sérstaka hækkun lægstu launa sem vinnuveitendur telja að gangi mjög nærri fyrirtækjum í ákveðnum atvinnugreinum. Þeir kynntu þó hugmyndir til lausnar sem ASÍ telur að komi verulega til móts við kröfur sínar. Þetta útspil er þó ekki endanlegt tilboð og er háð ýmsum skilyrðum sem einkum snúa að efnahagsumhverfinu og rekstrarskilyrðum fyrirtækjanna í landinu.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir tillögur samningsaðila til skoðunar.