Framsetning á áhrifum gengis krónunnar á kostnað vegna Icesave er í mörgum tilvikum röng, að sögn Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns og fulltrúa í samninganefnd Íslands á fundi Viðskiptaráðs um Icesave samninginn.
Hann segir að skuldin sé í pundum og evrum, en stór hluti eigna þrotabús Landsbankans sé í erlendum myntum. Gengi krónunnar hefur, að sögn Jóhannesar, áhrif þegar horft er á hámark þess sem Tryggingasjóðurinn getur fengið greitt úr þrotabúinu, en krafa hans í þrotabúið setur ákveðið þak á hámarksgreiðsluna.
Jóhannes segir hins vegar að krónan megi veikjast um 7-8 prósent áður en það hefur áhrif á endurheimtur sjóðsins. Hvert prósentustig, sem krónan veikist umfram það muni hins vegar kosta um sjö milljarða króna. Jóhannes segir því að svigrúmið sé umtalsvert.