Skrifstofa Hæstaréttar tók ekki við kæru Samstöðu þjóðarflokks á hendur Alþingi vegna afgreiðslu þess á Icesave og vísaði á ríkislögreglustjóra.
Forsvarsmaður flokksins afhenti ríkislögreglustjóra kæruna í gær og einnig Héraðsdómi Reykjavíkur og umboðsmanni Alþingis. Til stendur að afhenda forseta Íslands plaggið.
Kæran gengur út á það að kanna hvort samþykkt Alþingis á Icesave-lögunum hafi verið ólögleg og brjóti gegn stjórnarskrá þar sem sem með þeim sé unnið gegn hagsmunum landsins og lagðar svo miklar byrðar á skattborgara landsins að verulegar líkur séu á að þeir geti ekki staðið undir þeim.
„Það er ekki boðlegt að senda þjóðinni óútfylltan víxil í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Bjarni V. Bergmann, einn af stofnendum Samstöðu þjóðarflokks. Hann segist hræddur um að Ísland verði gjaldþrota vegna þessa máls og því sé nauðsynlegt að það verði dregið til baka.