Pólitísk skemmdarverk

Jón Gnarr, borgarstjóri.
Jón Gnarr, borgarstjóri.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagðist á fundi borgarstjórnar í dag hafna sleggjudómum um þá vinnu, sem lægi að baki tillögum um sameiningu og samrekstur í skólakerfi borgarinnar.  Sagðist hann hafa á tilfinningunni að unnin hefðu verið ákveðin pólitísk skemmdarverk í umræðunni.

Jón sagði, að fólk yrði að hafa í huga, að hér hefði orðið efnahagshrun og komið hefði fram í máli borgarfulltrúa, að allir gerðu sér grein fyrir því að það þurfi að spara og hagræða.

Hins vegar væri umræðan um tillögurnar mjög óbilgjörn. Fullyrt væri, að öll þessi vinna væri ömurleg og að þeir sem að henni kæmu séu eins og naut í flagi, hugsi ekki um börn og ætli að reyna að meiða sem flesta.

Þetta sagði Jón vera kolrangt.  Öll vinnan hefði verið unnin mjög vel og af mikilli tillitssemi og auðmýkt þótt reynt sé að gefa annað í skyn. Þá sagði Jón að sér þætti Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkur, hafa staðið sig mjög vel og sýnt festu, þrautseigju og auðmýkt.

Finnst þetta vera ofbeldi

„Mér finnst þetta vera ofbeldi," sagði Jón og bætti við að endalaust skítkast og neikvæðni væri hluti af hallærislegri og frumstæðri samræðuhefð. Hann hefði á tilfinningunni, að í þessu vinnuferli hafi verið unnin ákveðin pólitísk skemmdarverk og pólitísk öfl hefðu nýtt sér skipulagshæfileika sína og fjölmiðlatengsl til að ala á tortryggni og sá ótta. „Ég veit ekki hvað fólki gengur til með því," sagði hann.

Jón sagði að talað hefði verið um að meirihlutinn í borgarstjórn sakaði minnihlutann um popúlisma. Jón sagði, að ekki hefði verið almennilega skýrt á þessum vettvangi hvað popúlismi sé en sér hefðu nokkrum sinnum dottið þetta orð í hug þegar hann hlustaði á umræður í borgarstjórn, meðal annars þegar hann hlustaði á Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, í umræðunni fyrr í dag. Þar hefði Kjartan sagt að leikskólabörn væru orðin skelfingu lostin vegna hagræðingartillagnanna. „Hvers konar tal er þetta eiginlega?" spurði Jón og sagðist stórefast um að þetta sé rétt.

Ummælin ekki sæmandi

Kjartan sagðist í andsvari lýsa undrun og vanþóknun á ummælum borgarstjóra og sagði þau ekki honum sæmandi. Kjartan sagðist ekki hafa talað um börn í leikskóla heldur í grunnskóla og sagt að það væri ótti og kvíði í þeirra röðum eins og sjá mætti í umsögnum, sem borist hefðu um tillögur meirihlutans. Greinilegt væri, að borgarstjóri hefði ekki lesið þær umsagnir, sem fólkið í landinu hefði sent til hans í tugatali.

Jón sagðist biðjast velvirðingar hefði hann farið ranglega með. Hann vildi þó segja, að hann væri að minnsta kosti maður til að tala fyrir sig sjálfur og þurfi ekki að tala í gegnum Davíð Oddsson og Agnesi Bragadóttur. 

Á varla orð

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist varla eiga orð vegna yfirlýsinga borgarstjórans um pólitísk skemmdarverk. Fólki í borginni væri misboðið vegna vinnubragðanna, sem hefðu verið viðhöfð eins og ummæli, sem fallið hefðu í umsögnum um tillögurnar, bæru með sér.

„Ég hef aldrei heyrt borgarstjóra í Reykjavík tala með jafn afgerandi hætti niður til íbúa í borginni og starfsmanna borgarinnar.  Fólkið í borginni telur málið vont og hefur fulla heimild til að lýsa þeirri skoðun án þess að vera sakað um pólitísk skemmdarverk. Sé einhver er með pólitísk skemmdarverk er það meirihlutinn í Reykjavík," sagði Hanna Birna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert