Eftir harðar umræður um mál skólakerfisins í Reykjavík á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, var tillaga frá minnihlutanum, um að tillögur um sameiningu skóla í borginni verði dregnar til baka, felld með 9 atkvæðum gegn 6.
Tillagan, sem var frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, var tekin á dagskrá með afbrigðum. Í henni var lagt til, að tillögur um sameiningu grunnskóla og leikskóla, verði dregnar til baka og gengið verði til viðræðna við skólasamfélagið um nýjar tillögur.
Vísað var til þess, að nú lægju fyrir umsagnir frá skólarráðum, foreldrafélögum og fleirum og væru yfir 90% umsagnanna neikvæð.