Þjóðkirkjan vinnur nú að gerð nýrrar sálmabókar og verður tilraunahefti með 150 nýjum sálmum gefið út í haust.
Undirbúningur að útgáfu nýrrar sálmabókar kirkjunnar hefur staðið með hléum allt frá árinu 1972 þegar síðast kom út ný sálmabók. Hópur organista, guðfræðinga og íslenskufræðinga hefur komið að sálmabókarvinnunni, samkvæmt frétt á vef Þjóðkirkjunnar, kirkjan.is.
Tilraunaheftið 150 sálmar verður gefið út næsta haust með ódýru sniði og í takmörkuðu upplagi. Reiknað er með að heftið verði notað samhliða gömlu sálmabókinni. Þannig megi sjá hvernig nýju sálmunum verður tekið í kirkjum landsins. Fyrst og fremst á að prófa ný lög og nýja texta. Í sumum tilvikum er um gamla sálma að ræða. Sérstaklega er horft til þess að auka úrval sálma eftir konur.