Umboðsmaður Alþingis hefur skrifað fjármálaráðuneytinu bréf og beðið um nánari skýringar á því hvers vegna fjölmiðlar hafa ekki fengið upplýsingar um kostnað við gerð nýjustu Icesave-samninganna.
Bæði Morgunblaðið og Ríkisútvarpið hafa óskað eftir upplýsingum um þennan kostnað. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, lagði einnig fram fyrirspurn á Alþingi um kostnað við samninganefndina, þremur dögum eftir að Morgunblaðið bar fram sína ósk.
Morgunblaðið fékk í síðustu viku þær upplýsingar hjá fjármálaráðuneytinu að fjármálaráðuneytið væri að safna upplýsingum til að svara fyrirspurn þingmannsins en samkvæmt vinnulagi ráðuneytisins væri þingmönnum svarað á undan fjölmiðlum. Sömu svör hefur Ríkisútvarpið fengið.
Nú hefur umboðsmaður Alþingis sent ráðuneytinu bréf og óskað eftir upplýsingum svo hann geti metið hvort tilefni sé til þess að hann taki mál þetta formlega til athugunar að eigin frumkvæði.
Biður umboðsmaður um afrit af beiðnum fjölmiðla um ofangreindar upplýsingar, samskiptum ráðuneytisins við fjölmiðlana af þessu tilefni og svör sem þeim hafa verið látin í té.
Þá segir umboðsmaður, að sé það afstaða fjármálaráðuneytisins að ofangreindar beiðnir fjölmiðlanna falli ekki undir upplýsingarétt almennings samkvæmt upplýsingalögum þurfi ráðuneytið að gera grein fyrir því.
Þá segir í bréfi umboðsmanns: „Í tilvitnuðum frásögnum fjölmiðla hefur verið haft eftir talsmanni fjármálaráðuneytisins að svör við beiðnum fjölmiðlanna verði ekki veitt fyrr en búið er að svara á Alþingi fyrirspurn sem þingmaður hefur beint þar til fjármálaráðherra eftir að beiðni var komin fram af hálfu a.m.k. eins fjölmiðils og er að því er virðist um hluta þeirra atriða sem áðurnefndar fyrirspurnir fjölmiðlanna beinast að. Því er lýst í frásögnum fjölmiðla að þetta sé samkvæmt vinnulagi ráðuneytisins. Óskað er eftir upplýsingum hvort rétt sé haft eftir starfsmanni ráðuneytisins um framangreind atriði og þá jafnframt á hvaða lagagrundvelli umrædd afstaða um vinnulag ráðuneytisins sé byggð og þá sérstaklega þegar í hlut á beiðni frá öðrum aðila sem komin er fram áður en fyrirspurn kemur fram á Alþingi."
Umboðsmaður vill fá svör ráðuneytisins ekki síðar en 8. apríl.