„Mér finnst það með ólíkindum að forystumenn bæði atvinnurekenda og launþega skuli á þessum tímapunkti beinlínis hóta því að almenningur fái ekki kjarabætur nema hann kjósi eins og þeir ætlast til.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í dag um ummæli forystumanna SA og ASÍ um áhrif þess á kjarasamninga ef lögin um Icesave falla úr gildi.
Sigmundur Davíð segir að það gangi gróflega gegn lýðræðinu þegar forystumenn sem eigi að gæta hagsmuna almennings krefjist þess að fólk kjósi eins og þeir sjálfir vilji í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu.
„Maður veltir því fyrir sér hvers vegna þeir telja það hafa áhrif á hagþróun,“ segir Sigmundur Davíð um möguleika þess að forsendur kjarasamninga verði í uppnámi ef lögin falla. „Þeir héldu þessu sama fram fyrir ári en ekkert af því stóðst. Þvert á móti hefur skuldatryggingarálag Íslands, sem er sá mælikvarði sem við höfum á lánstraust þjóða, lagast jafnt og þétt frá því Íslendingar höfnuðu kröfunum á sínum tíma enda vita flestir að það að bæta á ríki skuldum og ábyrgðum er ekki til þess fallið að gera það að betri lántakanda,“ segir Sigmundur.