Umferð um höfuðborgarsvæðið dróst saman um 6,3% að meðaltali milli marsmánaða 2010 og 2011, miðað við þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Umferð um Hafnarfjarðarveg hefur dregist langmest saman milli mánaða, það sem af er árinu. Samdráttur virðist einnig vera mikið að aukast á Reykjanesbraut við Dalveg eða frá 1,7% milli febrúar mánaða í 5,6% milli mars mánaða. Þá minnkaði akstur um Vesturlandsveg ofan Ártúnsbrekku frá 1,7% milli febrúar mánaða og í 5,2% milli mars mánaða.
Frá áramótum hefur umferð því dregist saman um 4,4%, fyrir þessi þrjú mælisnið. Haldi þróunin áfram í takt við þrjá fyrstu mánuði ársins stefnir í rúmlega 3 prósenta samdrátt á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2011. Þetta er meiri samdráttur en vænta mátti samkvæmt síðustu spá Vegagerðarinnar.