Sjómaður hefur sent erindi til umboðsmanns Alþingis og til innanríkisráðuneytisins vegna þess að hann og öðrum í áhöfninni er gert ókleift að kjósa um Icesave. Skipið hélt úr höfn 10. mars og er fyrirhugað að það leggi að landi á sunnudag, daginn eftir kjördag.
Sjómaðurinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir að áður en skipið lét úr höfn hafi nokkrir skipverjar samband við starfsfólk sýslumanns í sitt hvoru embættinu til að fá að kjósa. Þeir fengu hins vegar þau svör að kjörgögn væru ekki klár og utankjörfundar atkvæðagreiðsla ætti ekki að hefjast fyrr en 16 mars.
Sjómaðurinn segist hafa sent umboðsmanni Alþingis bréf vegna málsins. Í svari frá honum tiltaki hann lög og reglugerðir sem lúta að kosningum um borð í skipum og kom þar fram að möguleiki væri fyrir hendi að kjósa um borð. Afrit af erindinu var sent á Ögmund Jónasson innanríkisráðherra.
Svar barst frá starfsmanni
innanríkisráðuneytisins 4. apríl um að möguleiki væri fyrir hendi að
halda kosningu um borð að því tilskyldu að kjörgögn kæmu um borð, en
þau skyldu afhent af sýslumanni og fyrir þau kvittað af skipstjóra. Sjómaðurinn segir hins vegar að það kosti útgerðina milljónir að sigla til hafnar til að ná í kjörgögn og sjómenn verði auk þess af tekjum. Sjómaðurinn hefur engu að síður sent útgerðarstjóranum áskorun um að skipinu verði snúið til lands og verði í höfn á hádegi á laugardag í stað þess að koma til hafnar á sunnudag eins og ráðgert var. Svar hefur ekki borist.