Samstaðan er mikil

Ómar Ragnarsson, aldursforseti stjórnlagaráðs, ávarpar ráðið.
Ómar Ragnarsson, aldursforseti stjórnlagaráðs, ávarpar ráðið. mbl.is/Golli

Ómar Ragnarsson, stjórnlagaráðsmaður, ávarpaði stjórnlagaráð og gesti við setningu stjórnlagaráðs sem fór fram í húsnæði ráðsins við Ofanleiti. Ómar er aldursforseti stjórnlagaráðs og stýrði því fyrsta fundi ráðsins en kosið verður um forseta stjórnlagaráðs á morgun.

Ómar tók við niðurstöðum stjórnlaganefndar, um breytingu á stjórnarskránni, úr höndum Guðrúnar Pétursdóttur, formanns nefndarinnar.

Ómar sagði kjörna stjórnlagaráðsmenn hafa gengið í gegnum mikið öldurót síðustu vikur en það hafi verið besta hópeflisverkefni sem hægt væri að hugsa sér. Samstaðan sé mikil innan hópsins.

Fyrsta verkefni stjórnlagaráðs var að finna samhljóm og syngja saman kvæðið Þingvallasöng eftir Steingrím Thorsteinsson, sem er betur þekkt undir nafninu „Öxar við ánna.“ 

Mikill gleðidagur

Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar sagði daginn í dag mikinn gleðidag og langþráðum áfanga hafi verið náð. Hún brýndi fyrir fulltrúum stjórnlagaráðs að halda sjó og standa af sér óveðrið. Í hennar huga væri stjórnlagaráðið nákvæmlega það sama og upphaflega hugmyndin um stjórnlagaþing gerði ráð fyrir.

Guðrún afhenti stjórnlagaráði niðurstöður stjórnlaganefndar sem eru um 700 blaðsíður að lengd. Hún sagði meginþunga skýrslunnar lúta að uppbyggingu nýrrar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þá hafi nefndin sett saman tvö heildstæð dæmi að nýrri stjórnarskrá. 

Skýrsla stjórnlaganefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert