Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir það ekkert annað en tilræði við lýðræðið að Samtök atvinnulífsins skuli hóta því að halda kauphækkunum frá launafólki ef ríkisstjórnin félli ekki frá áformum um að umbylta kvótakerfinu í sjávarútvegi.
Ögmundur fjallar um framgöngu Samtaka atvinnulífsins á heimasíðu sinni. Hann rifjar upp þegar norskir trúboðar í Eþíópíu hótuðu að hætta matargjöfum ef þeir fengju ekki að sýna kvikmyndir um trúboð.
„Hugrenningatengsl urðu til þess að þetta kom upp í hugann þegar ég heyrði Samtök atvinnurekenda hóta því í dag að þeir myndu halda kauphækkunum frá launafólki ef ríkisstjórnin félli ekki frá áformum um að umbylta kvótakerfinu, ef hún ekki spýtti í við stóriðjuframkvæmdir, lækkaði skatta á fyrirtæki og viti menn - ef þjóðin felldi Icesave-samninginn!!! Ég vona að mér hafi misheyrst að verkalýðshreyfingin hafi tekið undir þessar hótanir.
Í mínum huga er þetta ekkert annað en tilræði við lýðræðið - og það sem meira er tilræði við launafólk. Að taka það í gíslingu með þessum hætti er nánast sama ofbeldið og trúboðarnir í Eþíópíu beittu forðum eða hver er munurinn?“ spyr Ögmundur.