Lán frá Depfabank í Þýskalandi til Hafnarfjarðarbæjar upp á 4,2 milljarða er á gjalddaga í dag og bærinn á ekki peninga til að greiða lánið.
Í morgunblaðinu í dag segir Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri að viðræður um endurfjármögnun séu í eðlilegum farvegi. Verið sé að ræða við marga aðila.
Annað lán frá Depfabank upp á 5,3 milljarða er á gjalddaga 30. janúar á næsta ári. Búast má við að takist að semja um endurfjármögnun verði ný lán á mun verri kjörum. Áætlað er að vaxtagreiðslur bæjarins muni aukast um 385 milljónir vegna þeirra.
Fyrir skömmu féll 1,8 milljarða lán frá Depfabank til Reykjanesbæjar á gjalddaga en þá var samið um frestun á gjalddaga en að lánið myndi bera 7% vexti.