Dómur Hæstaréttar í máli Landsbanka Íslands hf. gegn Gift fjárfestingafélagi ehf. í dag mun fyrst og fremst hafa áhrif á hvað aðrir kröfuhafar fá út úr búi Giftar. Félagið á nú í nauðasamningum við kröfuhafa.
Gift eignarhaldsfélag ehf. var í dag dæmt í Hæstarétti til að greiða Landsbankanum ríflega 912 milljónir með dráttarvöxtum vegna framvirks samnings um hlutabréfakaup í bankanum. Áður en til greiðslu kom var bankinn tekinn til slitameðferðar. Gift neitaði að greiða kaupverðið þegar kom að gjalddaga.
Guðsteinn Einarsson, stjórnarformaður í Gift eignarhaldsfélagi,
sagði að Hæstiréttur hafi snúið við dómi héraðsdóms í máli Landsbanka
Íslands gegn Gift.
Gift á nú í nauðasamningum við kröfuhafa. Guðsteinn sagði að hluti eigna búsins séu veðsettur en einnig séu þar óveðsettar eignir. Hann sagði að eftir dóm Hæstaréttar sé ljóst að eignir búsins dreifist á fleiri kröfuhafa, þ.e. að Landsbanki Íslands hf. bætist í þeirra hóp.
Guðsteinn taldi að verði nauðasamningur samþykktur muni búið geta borgað um 14% af kröfum.
Samkvæmt því getur Landsbankinn mögulega fengið í kringum 140 milljónir vegna framvirka kaupsamningsins.
Um þessar mundir eru kröfuhafar að láta fara yfir rekstur félagsins. Þegar þeirri yfirferð lýkur munu verður tekin endanleg afstaða til nauðasamninga. Guðsteinn sagði vilyrði vera fyrir því að nauðasamningar verði samþykktir komi ekkert óvænt upp á.
Kristinn Hallgrímsson hrl., sem hefur lengi starfað fyrir Gift, sagði að dómur Hæstaréttar sé fordæmisgefandi fyrir önnur sambærileg mál. Nú liggi fyrir að menn þurfi að standa við framvirka kaupsamninga af þessu tagi.
Hefði héraðsdómur staðið hefðu slíkir samningar, samanlagt að andvirði um tugi milljarða, fallið á bankakerfið. Þeir geri það ekki eftir dóm Hæstaréttar í dag.