Áhrif á kröfuhafa Giftar

Eignir Giftar deilast á fleiri, eftir dóm Hæstaréttar í dag.
Eignir Giftar deilast á fleiri, eftir dóm Hæstaréttar í dag. Nærmynd

Dóm­ur Hæsta­rétt­ar í máli Lands­banka Íslands hf. gegn Gift fjár­fest­inga­fé­lagi ehf. í dag mun fyrst og fremst hafa áhrif á hvað aðrir kröfu­haf­ar fá út úr búi Gift­ar. Fé­lagið á nú í nauðasamn­ing­um við kröfu­hafa. 

Gift eign­ar­halds­fé­lag ehf. var í dag dæmt í Hæsta­rétti til að greiða Lands­bank­an­um ríf­lega 912 millj­ón­ir með drátt­ar­vöxt­um vegna fram­virks samn­ings um hluta­bréfa­kaup í bank­an­um. Áður en til greiðslu kom var bank­inn tek­inn til slitameðferðar. Gift neitaði að greiða kaup­verðið þegar kom að gjald­daga.

Guðsteinn Ein­ars­son, stjórn­ar­formaður í Gift eign­ar­halds­fé­lagi, sagði að Hæstirétt­ur hafi snúið við dómi héraðsdóms í máli Lands­banka Íslands gegn Gift.

Gift á nú í nauðasamn­ing­um við kröfu­hafa. Guðsteinn sagði að hluti eigna bús­ins séu veðsett­ur en einnig séu þar óveðsett­ar eign­ir. Hann sagði að eft­ir dóm Hæsta­rétt­ar sé ljóst að eign­ir bús­ins dreif­ist á fleiri kröfu­hafa, þ.e. að Lands­banki Íslands hf. bæt­ist í þeirra hóp.

Guðsteinn taldi að verði nauðasamn­ing­ur samþykkt­ur muni búið geta borgað um 14% af kröf­um.

Sam­kvæmt því get­ur Lands­bank­inn mögu­lega fengið í kring­um 140 millj­ón­ir vegna fram­virka kaup­samn­ings­ins.

Um þess­ar mund­ir eru kröfu­haf­ar að láta fara yfir rekst­ur fé­lags­ins. Þegar þeirri yf­ir­ferð lýk­ur munu verður tek­in end­an­leg afstaða til nauðasamn­inga. Guðsteinn sagði vil­yrði vera fyr­ir því  að nauðasamn­ing­ar verði samþykkt­ir komi ekk­ert óvænt upp á.

Tug­millj­arða samn­ing­ar falla ekki á banka­kerfið

Krist­inn Hall­gríms­son hrl., sem hef­ur lengi starfað fyr­ir Gift, sagði að dóm­ur Hæsta­rétt­ar sé for­dæm­is­gef­andi fyr­ir önn­ur sam­bæri­leg mál. Nú liggi fyr­ir að menn þurfi að standa við fram­virka kaup­samn­inga af þessu tagi.

Hefði héraðsdóm­ur staðið hefðu slík­ir samn­ing­ar, sam­an­lagt að and­virði um tugi millj­arða, fallið á banka­kerfið.  Þeir geri það ekki eft­ir dóm Hæsta­rétt­ar í dag.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert