Fara yfir viðbrögð ríkisstjórnar

Engin fundarhöld vegna kjarasamninganna eru í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara.
Engin fundarhöld vegna kjarasamninganna eru í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. mbl.is/Golli

Forystumenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins eru nú á fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar þar sem farið er yfir tillögur aðila vinnumarkaðarins um breytingar á yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

Í hádeginu ætla forystumenn innan ASÍ að bera saman bækur sínar um stöðu kjaraviðræðnanna og viðbrögð ríkisstjórnarinnar en ekki er reiknað með frekari fundum um kjaramálin eftir hádegi á meðan Samtök atvinnulífsins halda aðalfund sinn.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru ýmis stór mál enn óleyst í viðræðunum við stjórnvöld m.a. um lækkun atvinnutryggingagjaldsins í áföngum. Þannig vill fjármálaráðuneytið að það sem sparast hjá Atvinnuleysistryggingasjóði með minnkandi atvinnuleysi verði nýtt til að standa undir væntanlegri hækkun á bótum almannatrygginga. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gengið út frá að lækkun tryggingagjaldsins skapi svigrúm til launahækkana.

Skattamálin eru enn ófrágengin og eins hvaða aðferð notuð verður við hækkun bóta almannatryggingakerfisins samhliða væntanlegum launahækkunum sem samið verður um í kjarasamningum.

Engir fundir hjá Ríkissáttasemjara

Einstök landssambönd og félög innan ASÍ sem semja beint við atvinnurekendur eru langt komin í samningaviðræðum um sérmál. Reiknað er með að þessar viðræður haldi áfram á morgun.

Engin fundarhöld eru hins vegar í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert