Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, ítrekar að það sé ekki afstaða ASÍ sem stofnunar eða samtaka að samþykkja beri Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardag. Það sé hins vegar hans persónulega skoðun að best sé að ljúka málinu.
„Ég tel skynsamlegast að samþykkja þennan samning, einfaldlega vegna þess að ég tel að afleiðingarnar af því að halda málinu í óvissu séu verri en þær sem fylgja því að samþykkja samninginn.
Það er hins vegar alveg ljóst að Alþýðusambandið sem stofnun eða samtök hefur ekki tekið afstöðu til þessa samnings. Við höfum beðið okkar hagdeild um að meta kosti og galla þessara valkosta og hún hefur gert það með greinargerð. En jafnframt höfum við reynt að skrifa fréttabréf um hvað málið snýst og reynt að meðhöndla það eins hlutlaust og kostur er, þ.e. þegar við gerum grein fyrir sjónarmiðum já- og nei-hliðarinnar.
Við höfum hvatt okkar félagsmenn til þess að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu með þeim orðum að það sé mikilvægt að fólk móti sér afstöðu og greiði atkvæði eftir sinni sannfæringu. Það skiptir mjög miklu máli að allir taki þátt því hver sem eftirleikurinn verður, af já-i eða ne-i, að þá skiptir mjög miklu að sú niðurstaða verði á grundvelli mikillar þátttöku.
Var ekki kosinn til að hafa ekki skoðanir
- Þú ert þungavigtarmaður í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Þú segir að þetta sé þín skoðun en að samtökin hafi hugsanlega aðra skoðun eða enga. Hlýtur það ekki að hafa viss áhrif ef maður í þinni stöðu tjáir sig um málið og færir rök fyrir þvi að það sé þjóðinni fyrir bestu að samþykkja samninginn?
„Jú, jú. Ég tel ekki að ég hafi verið kosinn í þetta embætti til að hafa enga skoðun. Það er alveg klárt. Ég geri skýran greinarmun á því þegar ég er að lýsa yfir minni persónulegu skoðun, að ég tel, og síðan þegar samtökin móta sína stefnu og lýsa sinni skoðun sem samtök.“