Icesave gæti horfið með sölu á Iceland

Steingrímur J. Sigfússon ræddi Icesave ásamt öðrum forystumönnum stjórnmálaflokkanna á …
Steingrímur J. Sigfússon ræddi Icesave ásamt öðrum forystumönnum stjórnmálaflokkanna á Háskólatorgi í dag. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon segir hugsanlegt að með sölu á verslunarkeðjunni Iceland, sem er ein af verðmætustu eignum þrotabús gamla Landsbankans, gæti Icesave skuldin þurrkast út. Greint var frá því í morgun að verslunarkeðjan sé komin í söluferli og verðhugmyndir sé um 330-370 milljarðar króna.

Þar af á skilanefnd Landsbankans um 67%. „Það þýðir að þarna gæti, með einni sölu, 250 milljarðar bæst í búið og þá væri Icesave reikningurinn horfinn, vegna þess að í mati skilanefndar á hlutabréfaeignunum eru heildareignirnar metnar á 117 milljarðar," segir Steingrímur. Allt mat skilanefndarinnar fram til þess hafi verið afar varfærið en sé jafnt og þétt að styrkjast og óvissan að minnka eftir því sem meiri og meiri peningar reynist vera eftir til að borga reikninginn.

„Segjum nú að þetta gengi eftir, að áframhaldandi góð þróun og sala á verðmætum eignum þýddi að þrotabúið ætti að fullu fyrir höfuðstólnum, og gengisstaðan yrði slík þegar þetta yrði gert upp að við fengjum vaxtakostnaðinn líka að mestu leyti til baka. Að Icesave reikningurinn væri þá orðinn núll. Hvað væri þá unnið með nei-i? Hvers virði væri það?" segir Steingrímur.

Hann segir að í öllu falli sé það ekki Icesave reikningurinn sem þurfi að hafa mestar áhyggjur af, jafnvel þótt hann yrði rúmir 32 milljarðar, heldur tafir í efnahagsbatanum og hagvexti sem séu „undrafljótar að henda slíkum fjárhæðum út um gluggann."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert