Icesave verði að gíróseðlum á mánudag

Forustumenn stjórnmálaflokkanna á fundinum í dag.
Forustumenn stjórnmálaflokkanna á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að Íslendingar standi nú frammi fyrir því að Alþingi hafi klúðrað Icesave málinu þrisvar sinnum. „Í þetta sinn, Icesave III, er ennþá of mikil áhætta af samningnum, hann er opinn tékki sem við vitum ekki hvað verður hár,“ sagði Þór á opnum fundi um Icesave í Háskóla Íslands sem lauk nú um klukkan hálftvö.

Þór sagði ýmislegt benda til þess að „opni tékkinn“ verði ekki sérlega hár, en áhættan sé samt sem áður sú að hann fari allt upp í 200 milljarða og sú áhætta sé ekki ásættanleg. Hann sagði jafnframt að verði samningarnir samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu um helgina, þá breytist Icesave málið í gíróseðla á mánudag og í ríkissjóði séu ekki til peningar fyrir þeirri kröfu. Þá verði að sækja með skattahækkunum og niðurskurði í stoðkerfum samfélagsins.

Þór sagðist ekki telja hættu á því að Hollendingar og Bretar færu dómstólaleiðina, sem þýddi að þeir þyrftu að sækja sér bætur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. „Ég tel að þetta mál verði á endanum leyst með sanngjörnum samningum,“ sagði Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert