Kostnaður við gerð samninga um Icesave er rúmlega 300 milljónir króna. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins.
Steingrímur sagði að stærstur hlut kostnaðar lægi í kaupum á erlendri sérfræðiþjónustu. Kostnaður innlendra aðila væri mjög hóflegur og hlypi á tugum milljóna.
Steingrímur sagði að hæstu reikningarnir væru vegna lögfræðistofanna Hawkpoint, Ashurst, Cleary Gottlieb Steen & Hamilton sem er lögfræðistofa Lees Buchheits, og til Donalds Johnstons, fyrrverandi framkvæmdastjóra OECD, sem starfaði með nefndinni um tíma.
Umboðsmaður Alþingis hefur skrifað fjármálaráðuneytinu bréf og beðið um nánari skýringar á því hvers vegna fjölmiðlar hafa ekki fengið upplýsingar um kostnað við gerð nýjustu Icesave-samninganna.
Bæði Morgunblaðið og Ríkisútvarpið hafa óskað eftir upplýsingum um þennan kostnað. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, lagði einnig fram fyrirspurn á Alþingi um kostnað við samninganefndina, þremur dögum eftir að Morgunblaðið bar fram sína ósk.
Sigmundur Davíð spurði hvers vegna dregist hefði að svara spurningum um kostnaðinn og spurði hvort einhver nýr kostnaður hefði bæst við frá því að samninganefndin lauk störfum í desember á síðasta ári.
Steingrímur sagði miður að dregist hefði að svara spurningum um kostnað. Hann sagði að þegar lagt var út í nýja samningalotu hefði verið full samstaða um það á Alþingi að fá til liðs við okkur færustu erlendu sérfræðinga á þessu sviði. Það lægi fyrir að erlendir sérfræðingar væru dýrir og kostnaður vegna vinnu þeirra hlypi á hundruðum milljóna en ekki tugum. Vel hefði verið haldið utan um innlendan kostnað við samningsgerðina og hann væri ekki mikill.
Steingrímur sagði að enginn kostnaður hefði bæst við eftir að samninganefndin lauk störfum í desember. „Ég tel mig geta upplýst að greiðslur til erlendra aðila vegna ferlisins frá því í upphafi árs 2010 og til og með þessa dags eru yfir 300 milljónir króna,“ sagði Steingrímur og bætti við að stærstu reikningarnir væru til erlendra lögfræðiskrifstofa.