Leggja þarf sundurlyndisfjandann að velli

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Ómar

Árni Páll Árna­son, efna­hags- og viðskiptaráðherra, sagði á árs­fundi Seðlabank­ans í dag að brýn­asta verk­efni Íslend­inga nú væri að leggja sund­ur­lynd­is­fjand­ann að velli.

„Sagt er að í Svíþjóð sé ekki enn sam­hljóm­ur um or­sök bankakrepp­unn­ar og geng­is­hruns­ins sem þar varð árið 1992. Rann­sókn­ar­nefnd Alþing­is stillti or­sök­um falls ís­lensku bank­anna upp í 68 mis­mun­andi atriðum án or­saka­sam­heng­is, án alþjóðlegs sam­an­b­urðar og án grein­ing­ar á sögu­legu sam­hengi. Sagt er um Arg­entínu að þar hafi bankakreppa breyst í viðvar­andi stjórn­ar­fars- og  efna­hagskreppu því að sam­fé­lagið hafi aldrei komið sér sam­an um leiðina út. Sund­ur­lynd­is­fjand­inn á marga sam­herja á Íslandi og brýn­asta verk­efni okk­ar nú er að leggja hann að velli. Grunnstofn­an­ir hvort sem  er rík­is­stjórn, Alþingi eða Seðlabanki verða að þekkja sinn vitj­un­ar­tíma, skilja að skyld­an er sú að greina sam­eig­in­lega þjóðar­hags­muni og láta þá ráða í einu og öllu," sagði Árni Páll.

Hann sagði að mál­flutn­ing­ur Seðlabanka Íslands til út­skýr­ing­ar á því sem aflaga fór að þessu leyti í aðdrag­anda hruns­ins sé í fjötr­um per­sónu­varn­ar þáver­andi for­manns banka­stjórn­ar í til­raun­um hans til að koma sök á aðra.

„Skylda bank­ans er að skila frjálsu og gagn­rýnu fræðilegu mati á því af hverju mæli­kv­arðar Seðlabank­ans á fjár­mála­stöðug­leika í land­inu reynd­ust rang­ir. Meint­ar viðvar­an­ir for­manns banka­stjórn­ar sem voru óskráðar og ótengd­ar mati á fjár­mála­stöðug­leika eru nú grunn­ur sak­sókn­ar gegn fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra. Get­ur slíkt verklag, jafn­vel þótt það hafi verið viðhaft, nokk­urn tíma tal­ist rétt­mætt, fag­legt og stofn­un­inni sam­boðið?" sagði Árni Páll.

Ræða Árna Páls Árna­son­ar

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert